Enski boltinn

Ferguson ætlar að vera á toppnum í janúar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Á meðan venjulegt fólk skipuleggur huggulegt jólafrí þurfa leikmenn í ensku úrvalsdeildinni að búa sig undir mikil átök enda leikið þétt um jólin og línur eiga það til að skýrast eilitið í jólamánuðinum.

Man. Utd fer inn í jólamánuðinn á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og Sir Alex Ferguson, stjóri Man. Utd, ætlar sér að vera þar þegar mánuðinum lýkur.

Man. Utd leikur gegn Chelsea og Arsenal í mánuðinum og því mikilvægir leikir í toppbaráttunni fram undan. Arsenal kemur á Old Trafford 13. desember og United sækir Chelsea heim sex dögum síðar.

"Maður vill alltaf vinna þessa leiki því þeir skipta gríðarlegu máli. Okkur hefur tekist að komast á toppinn og þessir leikir verða gríðarlega mikivægir," sagði Ferguson.

"Við sáum á síðasta tímabili hversu miklu máli. Í leikjunum tveimur gegn Chelsea fóru stórar ákvarðanir gegn okkur og þær urðu þess valdandi að Chelsea varð meistari."

Það er ekkert hlaupið að því að halda leikmönnum ferskum á þessu erfiða tímabili.

"Það þarf að nýta hópinn vel í desember. Þrír leikir á sex dögum er mikið en við höfum leikmenn sem eiga að geta tekist á við álagið. Vonandi erum við á réttum stað í byrjun janúar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×