Skoðun

Illa ígrunduð og niðrandi skrif

Sigurjón Þórðarson skrifar

Hagfræðingurinn Þröstur Ólafsson skrifar nokkuð langa grein í Fréttablaðið þann 1. desember sl. þar sem hann kvartar sáran yfir því að íbúar hinna dreifðu byggða hafi reynt að verjast allt að 40% niðurskurði á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni í boði Guðbjarts Hannessonar heilbrigðisráðherra.Eftir fyrstu endurskoðun á óvægnum niðurskurðartillögum Samfylkingarinnar blasir við Skagfirðingum að fjárframlög Heilbrigðisstofunarinnar sem voru skorin niður um 11% í ár, verði skorin áfram hörkulega niður um 24% á næstu tveimur árum.

Ekki fór neitt fyrir efnislegum rökum hjá hagfræðingnum fyrir þvílíku offorsi gegn heilbrigðisþjónustunni. Þröstur varði hins vegar miklu púðri í niðrandi skrif um nauðvörn íbúa fyrir grunnþjónustu á borð við heilsugæslu og sjúkrarými fyrir aldraða. Í ljósi þeirra fordóma sem komu fram í grein Þrastar er rétt að benda honum og öðrum á vandað lögfræðiálit Daggar Pálsdóttur þar sem efast er um lögmæti boðaðs niðurskurðar. Sömuleiðis hafa reynslan og útreikningar sýnt að vanhugsaðar breytingar og niðurskurður á einum stað í heilbrigðiskerfinu geta leitt til aukins kostnaðar annars staðar í kerfinu.

Ánægjulegar viðhorfsbreytingar koma þó fram í grein Þrastar um að rétt sé að minnka yfirbyggingu og gæta hófs en sjálfur var hann einn helsti hvatamaður að byggingu rándýrs tónlistarhúss í samvinnu við útrásarvíkinga. Sömuleiðis barðist hann hart gegn því að byggingunni yrði slegið á frest þegar kreppan fór að læsa klóm sínum í landsmenn. Og ráðamenn tóku þátt í þeirri vörn.

Mér finnst illa ígrundað og í hæsta máta óskynsamlegt hjá norrænu velferðarstjórninni að ætla að flytja aldraða hreppaflutningum úr heimabyggð. Forgangsröðum frekar gæluverkefnum aftar í röðina, þau geta beðið en aldraðir ekki.




Skoðun

Sjá meira


×