Viðskipti erlent

Móðurfélag Norðuráls tapaði 1,9 milljarði á þriðja ársfjórðungi

Century Aluminium, móðurfélag Norðuráls, skilaði tapi upp á 16,8 milljónir dollara eða um 1,9 milljörðum kr. á þriðja ársfjórðungi ársins. Til samanburðar varð rúmlega 40 milljóna dollara hagnaður af starfsemi félagsins á sama tímabili í fyrra.

Fram kemur í uppgjörinu að megnið af tapinu stafi af framvirkum samningum um sölu á áli sem tengdir voru markaðsverðinu á málmmarkaðinum í London en félagið tapaði 12,2 milljónum dollara á þessum samningum.

Logan W. Kruger forstjóri Century Aluminium gerir fyrirhugað álver félagsins við Helguvík að umtalsefni í tilkynningu um uppgjörið. Þar segir Kruger að bygging þessa álvers hafi gengið mun hægar en þeir hafi viljað vegna flókinna pólitískra og efnahagslegra aðstæðna á Íslandi eins og það er orðað. Því hafi verulega verið dregið úr framkvæmdum við byggingu álversins.

Kruger segir að þótt erfitt sé að spá fyrir um hvenær bygging álversins fari á fullt skrið er stjórn Century Aluminium vongóð um að það verði á fyrrihelming næsta árs.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×