Gagnrýni

Varnarræða vændiskonu

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Hið dökka man - ævisaga Catalina Mikue Ncogo - bókarkápa
Hið dökka man - ævisaga Catalina Mikue Ncogo - bókarkápa

Bækur

Hið dökka man, saga Catalinu

Jakob Bjarnar Grétarsson og Þórarinn Þórarinsson



Catalina Mikue Ncogo varð alræmd á einni nóttu eftir að upp komst um umfangsmikinn rekstur hennar í vændisgeiranum snemma árs 2009. Síðan hefur varla linnt fréttum af henni og mætti ætla að það væri að bera í bakkafullan lækinn að gefa sögu hennar út á bók. Höfundarnir, Jakob og Þórarinn, telja svo ekki vera og segja í eftirmála að vel megi vera að Catalina sé bersyndug kona „en það réttlætir ekki að hún sé beitt þöggun". (bls. 197)



Frásögnin byggist enda mestan part á frásögn Catalinu sjálfrar í beinni ræðu, en inn í er skotið almennri umfjöllun um Miðbaugs-Gíneu, sagt frá dómsmálum á hendur henni og fréttaflutningur af þeim ítarlega rakinn, rætt við nokkra af viðskiptavinum hennar og birtar skýrslur starfsmanna í Kópavogsfangelsinu um aðför annarra fanga að Catalinu.



Frásögn Catalinu virðist tekin nánast orðrétt upp af segulbandinu og það verður að segjast eins og er að hún er ekki sérlega góður sögumaður og hefði vel mátt við góðri ritstýringu. Hún veður úr einu í annað og endar einræður sínar oftar en ekki á að skammast út í femínista og kerfið á Íslandi sem af þeirra völdum er svo fjandsamlegt vændi og leggja ítrekaða áherslu á að víst sé hún hamingjusöm hóra. Þegar talið berst að óþægilegum hlutum ber hún ýmist fyrir sig minnisleysi eða fer að tala um eitthvað annað.



Oft lendir hún í mótsögn við sjálfa sig og stundum sjá höfundarnir ástæðu til að taka fram í neðanmálsgrein að þetta sé hennar útgáfa af sögunni, aðrir „hagsmunaaðilar" hafi aðra sögu að segja eða þá að aðrir hafi staðfest að þetta sé rétt hjá henni. Reyndar virðast þeir draga sannsögli hennar svo mikið í efa að þeir sjá ástæðu til að byrja eftirmálann, þar sem þeir útskýra ástæður sínar fyrir skrifunum, á beinni tilvitnun í Catalinu sjálfa: „Við ljúgum. Það er nú það sem við vændiskonur gerum." (bls. 195)



Þeir félagar Jakob og Þórarinn eru báðir sjóaðir blaðamenn og góðir pennar, textinn rennur vel og annað efni en einræður Catalinu er skipulega og vel fram sett. Alltaf er auðvitað spurning hvaða leið á að fara í svona bókum og þessum lesanda hér finnst að kröftug ritstýring hefði verið til mikilla bóta og að það hefði verið skaðlaust að fleiri raddir fengju að heyrast um þetta eilífa deilumál. Hér kemur fátt fram sem ekki er á flestra vitorði fyrir og þeir sem eru í leit að krassandi sögum úr íslenskum undirheimum verða að róa á önnur mið.



Niðurstaða: Ágætlega skrifuð en frekar daufleg frásögn af lífi einnar alræmdustu konu á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.