Innlent

Ögmundur: Almenningur búinn að fá upp í kok

Ögmundur fjallar um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis í pistli á heimasíðu sinni. „Á öðrum vettvangi er síðan verið að kortleggja hverjir það voru sem stálu Íslandi og í kjölfarið sjá til þess að ránsfengnum verði skilað."
Ögmundur fjallar um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis í pistli á heimasíðu sinni. „Á öðrum vettvangi er síðan verið að kortleggja hverjir það voru sem stálu Íslandi og í kjölfarið sjá til þess að ránsfengnum verði skilað." Mynd/Arnþór Birkisson

„Er þetta leikrit eftir Ibsen? Nei, þetta er Ísland í dag," segir Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, í pistli á heimsíðu sinni í dag. Þar fjallar hann um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis sem kemur út á morgun. Hann segir hópmúgsefjun ríkja í þjóðfélaginu í tengslum við útkomu skýrslunnar. Þá segir að hann að almenningur sé búinn að fá upp í kok á réttarkerfi sem byggi á öfugsnúningi.

„Lögreglan segist verða í viðbragðsstöðu, biskup þjóðkirkjunnar hefur sent prestum og djáknum bréf þar sem hann hvetur til þess að söfnuðir kaupi eintak af skýrslunni og láti liggja frammi í safnaðarheimilum. Þar geti fólk síðan beðist fyrir. Fjölmiðlarnir segjast hafa verið að undirbúa sig vikum saman, fréttamenn eru hvattir til að verða vel sofnir, leikarar munu stíga á svið í maraþon lestri þar sem hvert orð skýrslunnar verður lesið á fimm sólarhringum," segir Ögmundur og spyr í framhaldinu hvort þetta sé leikrit eftir Ibsen.

Er þjóðin að ná sér í syndaaflausn?



Ögmundur segir að kannski sé þetta ekkert skrýtið. Rannsóknarnefndin sem hann kallar rannsóknarrétt hafi ítrekað komið fram til að skýra frá því að nefndin hafi í allan vetur grátið sig í svefn yfir þeirri óhamingju sem skýrslan boðar.

„Skýrir þetta kannski spenninginn? Svona einsog þegar fólk safnaðist saman til að fylgjast með því þegar fólk var hálshöggið eða brennt á báli? Hópmúgsefjun. Hverju er verið að fullnægja? Réttlætinu? Er þjóðin kannski að ná sér í syndaaflausn?"

Samfélagið brást



Þingmaðurinn telur að málið sé mun einfaldara. Allir vita að samfélagið hafi brugðist og laga verði brotalamirnar. Skýrslan eigi að hjálpa til við það verk. þeir sem misbeittu valdi sínu þurfa að sjálfsögðu að svara fyrir það, að mati Ögmundar.

„Um það fjallar þessi skýrsla, og er að mínu mati þörf á yfirvegun, ekki miðstýrðri múgsefjun einsog lagt er upp með. Á öðrum vettvangi er síðan verið að kortleggja hverjir það voru sem stálu Íslandi og í kjölfarið sjá til þess að ránsfengnum verði skilað," segir þingmaðurinn.

Vill allt upp á borðið

Þá segir Ögmundur að almenningur sé búinn að fá upp í kok á réttarkerfi sem byggi á öfugsnúningi. „Það þarf ekki annað en að opna fólki sýn inn í kerfið þá er það knúið til að bæta sig. Í skjóli leyndar þrífst spillingin. Það á við núna ekkert síður en í gær. Það á við í stjórnmálum, það á við í fjármálakerfinu, það á við alls staðar. Þess vegna er krafa dagsins: Allt upp á borð, allt skal vera lýðræðislegt og opið, ekki bara varðandi gærdaginn. Heldur núna."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×