Enski boltinn

Everton ekki búið að gefa upp vonina um nýjan leikvang

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Everton.
Stuðningsmenn Everton. Mynd/AFP

Forráðamenn Everton hafa átt jákvæðar viðræður við borgarstjórn Liverpool um nýjan leikvang félagsins innan borgarmarkanna. Tillögu Everton um nýjan völl við Kirby var hafnað á síðasta ári en nú er komið annað hljóð í viðræðurnar.

Everton ætlaði að byggja 50 þúsund manna leikvang í samvinnu Tesco en framkvæmdirnar áttu að kosta um 400 milljónir punda. Borgarstjórn Liverpool var á móti þeim plönum en hefur nú opnað fyrir möguleikann að byggja nýja völlinn annarsstaðar í borginni.

„Jákvæður fundur fór fram á milli Everton FC og borgarstjórnar Liverpool-borgar um framtíðarleikvang Everton innan borgarmarkanna. Frekari viðræður hafa verið skipulagðar í næstu framtíð," kom fram í sameiginlegri yfirlýsingu.

Everton spilar nú heimaleiki sína á Goodison Park sem tekur 40.157 manns í sæti. Líkt og nágrannar þeirra í Liverpool hafa þeir verið ólmir að komast á nýrri og stærri völl til að halda í við stærstu félögin í ensku úrvalsdeildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×