Enski boltinn

Carragher: Þetta var mjög slæmt kvöld fyrir Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jamie Carragher hjá Liverpool í baráttunni við Gylfa Þór Sigurðsson.
Jamie Carragher hjá Liverpool í baráttunni við Gylfa Þór Sigurðsson. Mynd/AFP
Jamie Carragher bað stuðningsmenn Liverpool afsökunar á frammistöðu liðsins í ensku bikarkeppninni í gær en Liverpool féll þá úr leik á heimavelli á móti b-deildarliði Reading.

„Þetta var mjög slæmt kvöld fyrir Liverpool og við getum ekkert falið okkur fyrir því. Við verðum að standa okkur betur á móti liði úr neðri deildunum," sagði Jamie Carragher.

„Við verðum að biðjast afsökunar fyrir frammistöðu okkar en við getum líka að sama skapi hrósað leikmönnum Reading fyrir flotta frammistöðu," sagði Carragher en Íslendingarnir þrír, Ívar Ingimundarson (maður leiksins), Gylfi Þór Sigurðsson (mark) og Brynjar Björn Gunnarsson (stoðsending í sigurmarkinu) áttu allir flottan leik í gær.

„Við viljum vinna en þurfum líka að kunna að tapa því þeir áttu þennan sigur skilinn. Á sama tíma verðum við að skoða okkar leik og átta okkur á því að svona frammistaða er ekki boðleg," sagði Carragher.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×