Viðskipti erlent

Aðeins Írland með lægri fjármagnstekjuskatt en Ísland

Aðeins Írland er með lægri fjármagnstekjuskatt en Ísland af Evrópuþjóðum og munar nokkru þar sem skatturinn er 12,5% á Írlandi en 18% hérlendis. Talið er að Írar muni þurfa að hækka fjármagnstekjuskatt sinn töluvert í komandi samningaviðræðum við ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um neyðaraðstoð fyrir Írland.

Fjallað er um fjármagnstekjuskatt í Evrópulöndum á Market Watch vefsíðu The Wall Street Journal. Þar kemur fram að þessi skattur liggur yfirleitt á bilinu frá rúmlega 20% til rúmlega 30%. Hvað Norðurlöndin varðar er fjármagnstekjuskatturinn 25% í Danmörku, 26% í Svíþjóð og Finnlandi og 28% í Noregi.

Hæsti fjármagnsskatturinn er í Frakklandi eða rúm 34% og í Belgíu eða tæp 34%. Í Þýskalandi er skatturinn rúm 30% og á Spáni slétt 30%. Lægsti fjármagnstekjuskatturinn, fyrir utan Írland og Ísland, er í Tékklandi og Portúgal eða 19%.

Af öðrum þjóðum má nefna að í Bretlandi er fjármagnstekjuskatturinn 28% og í Sviss rúmlega 21%.

Til samanburðar má svo nefna að fjármagnstekjuskattur í Bandaríkjunum er rúmlega 39%. Er þá tekinn saman alríkisskatturinn (32,7%) og meðaltalið af þeim fjármagnstekjuskatti sem einstök ríki taka (6,4%).








Fleiri fréttir

Sjá meira


×