Enski boltinn

Engin pressa á Adebayor að koma strax til baka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emmanuel Adebayor, fyrirliði Tógó, sést hér strax eftir árásina.
Emmanuel Adebayor, fyrirliði Tógó, sést hér strax eftir árásina. Mynd/AFP

Emmanuel Adebayor, fyrirliði Tógó, fær eins mikinn tíma og hann þarf til að jafna sig á skotárásinni sem rúta landsliðs hans varð fyrir á föstudaginn. Þátttöku Tógó í Afríkukeppninni er lokið en Manchester City er ekki að pressa á að Adebayor komi strax til baka.

Adebayor er nú staddur í Lome, höfuðborg Tógó, þar sem hann tekur þátt í þriggja daga sorg þjóðar sinnar. Adebayor átti að koma til Englands í kjölfarið en það eru ekki miklar líkur á því að hann verði með á móti Everton um helgina.

„Við munum tala við hann þegar hann kemur til baka. Við munum þá skoða það hvenær hann mun koma til baka inn í liðið. Hann mun ráða því sjálfur hvenær hann er tilbúinn að spila á ný. Við finnum mikið til með honum," sagði Roberto Mancini, stjóri Manchester City.

Emmanuel Adebayor á enn eftir að spila sinn fyrsta leik fyrir Roberto Mancini síðan að ítalinn tók við liðinu af Mark Hughes um miðjan desember. City-liðið hefur unnið alla fjóra leiki sína undir stjórn Mancini með markatölunni 10-1.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×