Viðskipti innlent

Samkomulag um fjármálastöðugleika undirritað

MYND/365

Í dag gengur í gildi samkomulag um samvinnu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna yfir landamæri til að tryggja fjármálastöðugleika og samhæfa viðbrögð við fjármálaáfalli sem snertir fleiri en eitt ríki. Í tilkynningu frá Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu segir að samkomulagið hafi verið undirritað af fulltrúum fagráðuneyta, seðlabanka og fjármálaeftirlits Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Lettlands, Litháen, Noregs, Svíþjóðar auk Íslands.

„Með samkomulaginu er komið á fót fyrsta evrópska samstarfshópnum á grundvelli samkomulags ríkja innan EES um samvinnu til að tryggja fjármálastöðugleika yfir landamæri," segir ennfremur. „Þannig eru stjórnvöld Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna fyrst til að innleiða ákvæði þessa samkomulags EES sem undirritað var í júní 2008."

Bent er á að samkomulagið sé ekki lagalega bindandi en á grundvelli þess verði unnt að efla samvinnu, samhæfa viðbrögð og vinnubrögð þegar hætta steðjar að, meðal annars með betri upplýsingagjöf milli stofnana. „Fjármálakerfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna hafa á síðari árum orðið mjög samofin. Aukin þörf er því á að auka samvinnu eftirlitsstofnana til að tryggja fjármálastöðugleika. Markmið stjórnvalda ríkjanna er að draga úr hættu á því að fjármálakreppa kunni að breiða úr sér yfir landamæri. Ástand sem bundið er við einstakt ríki fellur ekki undir samkomulagið."

Að lokum segir að settur verði á fót samráðshópur aðildarríkjanna um fjármálastöðugleika og munu löndin skiptast á að gegna formennsku í hópnum. Fulltrúi efnahags- og viðskiptaráðuneytis Danmerkur mun verða fyrsti formaður hópsins.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×