Viðskipti erlent

Hafa tæpan mánuð til að bjarga Grikklandi frá greiðslufalli

Höskuldur Kári Schram skrifar
Strauss-Kahn lýsti því yfir að lánabeiðni Grikkja fengi flýtimeðferð hjá sjóðnum. Mynd/ AFP.
Strauss-Kahn lýsti því yfir að lánabeiðni Grikkja fengi flýtimeðferð hjá sjóðnum. Mynd/ AFP.
Grikkir hafa aðeins rétt tæpan mánuð til að komast að samkomulagi við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um lánafyrirgreiðslur til að forða ríkinu frá greiðslufalli. Sérfræðingar óttast að sá björgunarpakki sem nú er til umræðu dugi hins vegar ekki til bjarga Grikkjum.

Grísk stjórnvöld óskuðu í síðustu viku eftir aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að takast á við efnhagskreppuna þar í landi. Rætt er um að Grikkir fái 45 milljarða evru lán frá AGS og Evrópusambandinu.

Stór lán eru á gjalddaga í næsta mánuði - það stærsta átta og hálfur milljarður Evra er á gjalddaga 19. maí. Grikkir þurfa nauðsynelga að ganga frá lánasamningum við AGS og Evrópusambandið fyrir þann tíma.

Grikkir þurfa væntanlega að taka á sig meiri niðurskurð en nú þegar hefur verið boðaður - en niðurskurðaráformum ríkisstjórnarinnar hefur verið harðlega mótmælt.

Þá óttast margir sérfræðingar að efnhagsástandið í Grikklandi sé mun verra en af er látið. Fjölmargir eru reyndar á þeirri skoðun að sá lánapakki sem nú sé til umræðu dugi alls ekki til að bjarga Grikkjum frá greiðslufalli.

Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, lýsti því yfir í gær að lánabeiðni Grikkja fái sérstaka flýtimeðferð hjá sjóðnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×