Viðskipti erlent

Alþjóðabankinn: Gullverð ráði gengi gjaldmiðla

Robert Zoellick forstjóri Alþjóðabankans vill að heimsmarkaðsverð á gulli ráði aftur gengi stærstu gjaldmiðla heimsins. Þetta kemur fram í áliti frá Zoellick sem birt hefur verið á vefsíðu Financial Times.

Zoellick segir að heimurinn hafi þörf fyrir nýtt nútímalegt kerfi þar sem gengi helstu gjaldmiðla heimsins verði tengt við verðþróun gulls.

Athygli vekur að þessar hugmyndir leggur Zoellick fram í aðdragenda að G-20 fundinum í Seoul í Suður-Kóreu í þessari viku þar sem m.a. verður fjallað um gjaldmiðlastríð það sem nú geysar í heiminum.

Zoellick vill að gullviðmið komi í stað núverandi Bretton Woods II kerfisins sem hefur verið í gildi frá árinu 1971.

Samkvæmt hugmyndum Zoellick ætti hið nýja kerfi að ná til dollarans, evrunnar, breska pundsins og hins kínverska júans.

Hið upphaflega Bretton Woods kerfi, sem sett var á fót 1944, átti að stuðla að stöðugleika á fjármálamörkuðum og koma í veg fyrir kreppur. Richard M. Nixon þáverandi forseti Bandaríkjanna eyðilagði það árið 1971 þegar hann skar á tengsl dollarans við gullverðið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×