Sport

Þormóður vann gullið í Króatíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þormóður Jónsson.
Þormóður Jónsson. Mynd/Vilhelm
Þormóður Jónsson vann glæsilegan sigur í gær á alþjóðlegu móti í júdó í Króatíu en þrír íslenskir keppendur tóku þátt í þessu sterka móti. Hermann Unnarsson varð í 4. sæti en Ægir Valsson tapaði öllum sínum glímum.

Þormóður varð í þriðja sætið á þessu móti í fyrra en núna vann hann allar sínar viðureignir örugglega og þar með gullverðlaunin.

Fyrsta viðureign Þormóðs var gegn Dejan Vukcevic frá Svartfjallalandi og fór hún í gullskor sem Þormóður vann með bragðinu Uranage og fékk fyrir það Wazaari. Næst mætti hann Vladimir Gajic frá Serbíu og vann hann þá viðureign á Ippon með Kosoto-gari og í úrslitunum mætti hann sigurvegaranum frá síðasta ári, Ibro Miladin frá Bosniu og vann Þormóður hann einnig á Ippon með sama bragði, Kosoto-gari.

Hermann var ekki langt frá því að komast alla leið í úrslitin en er hann tapaði í átta manna úrslitum var sá möguleiki úti. Hann fékk uppreisnarglímu og vann hana og keppti því um bronsið en tapaði naumlega og endaði því í fjórða sæti.

Þeir félagar hafa dvalið í Tékklandi síðan í haust við æfingar og verða þar fram í desember. Næst keppa þeir á Opna Finnska 6-7 nóv. og síðan viku seinna á Eroupian Cup á Marabella á Spáni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×