Erlent

Danir telja ómögulegt að banna Vítisengla

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Danir telja ómögulegt að banna Vítisengla. Mynd/ AFP.
Danir telja ómögulegt að banna Vítisengla. Mynd/ AFP.
Það er engin ástæða fyrir Dani til að kanna nánar hvort hægt sé að beita stjórnarskránni til þess að banna starfsemi mótorhjólaklúbba á borð við Vítisengla, eða aðra áþekka klúbba. Þetta eru niðurstöður skýrslu sem Lars Barfoed, dómsmálaráðherra Danmerkur, hefur undir höndum. Hann ætlar því ekki að kanna betur hvort slíkt bann sé raunhæfur kostur.

Það voru embætti Ríkislögmanns og Ríkislögreglustjórans í Danmörku sem gerðu skýrsluna. Markmiðið var að kanna hvort hægt væri að sýna fram á að gengin væru hættuleg og glæpastarfsemi væri markmið þeirra.

Niðurstöður skýrsluhöfunda eru þær að það sé einungis hægt að leysa upp slík glæpasamtök ef búið er að sanna að það sé markviss stefna þeirra að vinna að glæpum eða ofbeldi. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að það leiki umtalsverður vafi á því hvort hægt sé að færa fram slikar sannanir gegn tilteknum klúbbum.

Þá spyrja skýrsluhöfundar jafnframt að því hvort meðlimir slíkra klúbba myndu hætta að fremja glæpi þótt þeim væri bannað að einkenna sig með því að ganga með merki á bakinu eða halda til í klúbbhúsum.

Jafnframt efast skýrsluhöfundar um að það sé heppilegt að banna samtökin með lögum. Það gæti jafnvel gert rannsóknir á ýmsum glæpum erfiðari.

Það var Danmarks Radio sem greindi frá.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×