Innlent

Inhale fær gríðarlega blendnar viðtökur í Bandaríkjunum

Valur Grettisson skrifar

Nýjasta kvikmynd Baltastar Kormáks, Inhale, fær aldeilis blendnar móttökur gagnrýnanda í Bandaríkjunum en hún verður frumsýnd þar um helgina.

Svo virðist sem gagnrýnendur finnist hún beinlínis léleg eða frábær. Þannig fær Baltasar útreið hjá tímaritinu Variety sem segir söguna þreytta hasarmynd sem einkennist af ósannfærandi leik.

Annar gagnrýnandi, sem tilheyrir kvikmyndasíðunni Metromix, og vitnað er til á Rottentomatoes.com, segir myndina kjánalega spennumynd sem líti á sig sem listrænan siðferðisboðskap. Henni mistakist þó hrapalega.

Hann bætir svo um betur og segir myndina í raun líta út eins og ef leikstjórinn Robert Rodrigues hefði ekki verið að grínast þegar hann gerði Grindhouse myndina Machete. Sú mynd er ekki enn kominn til sýningar hér á landi en ku vera ofbeldisfullur óður til mexíkóskrar b-myndagerðar.

Á heimasíðu Rottentomatoes, sem er miskunnarlaus í stjörnugjöfum gagnvart kvikmyndum, mælist myndin með 42 prósent. Sem er vel undir meðallagi. Á heimasíðunni The Metacritic, sem er af svipuðum toga og Rottentomatoes, fær myndin 31 af 100.

En Baltasar þarf ekki að örvænta því aðrir gagnrýnendur, og virtir, eru beinlínis yfir sig hrifnir af kvikmyndinni.

Þannig segir gagnrýnandi The New York Observer, Rex Reed, að myndin sé dýnamískur þriller sem veiti áhorfendum hrollvekjandi sýn inn í raunverulegan heim.

Hann víkur þó nokkrum orðum að leikstjórn Baltasar og segir hann ekki hafa haft næg tök á leikurunum og þeir sýni frekar flatneskjulegan leik.

Aftur á móti segir sami gagnrýnandi að aðalleikari myndarinnari Dermot Mulroney eigi stjörnuleik. Hann spyr svo í lokin hversvegna hann sé ekki ofurstjarna ein sog Brad Pitt eða Matt Damon.

Rýnin í The Hollywood Reporter er af svipuðu meiði og hjá Alex Reed. Þar er talað um frábæran leik Mulroney. Hann segir endinn einnig magnaðan, eins og högg í magann.

Hvernig sem fer þá eru það áhorfendurnir sem skipta máli en myndin verður frumsýnd vestan hafs á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×