„Þetta eru gríðarleg vonbrigði og við erum mjög sárar og svekktar yfir þessu," sagði Berglind Íris Hansdóttir markvörður Vals eftir 20-19 tap liðs síns í úrslitaleik Eimskipsbikarsins í Laugardalshöll í dag.
Berglind Íris átti stórleik í marki Vals í leiknum en það dugði ekki til að þessu sinni.
„Við lentum náttúrulega í því að elta þær eftir mjög slæma byrjun þar sem við lentum 5-0 undir. Við komust aftur inn í leikinn og náðum að jafna á lokamínútunum og komast í möguleika á að skora sigurmarkið en þess í stað fáum við á okkur ótrúlega svekkjandi mark á lokasekúndunum.
Þetta er alveg ömurlegt því um leið og við fórum að spila sem lið þá fór þetta að ganga hjá okkur en við byrjuðum bara of seint á því," sagði Berglind Íris svekkt.