Innlent

Óeðlilegar lánveitingar Hraðbrautar

Ólafur H. Johnson, skólastjóri Menntaskólans Hraðbraut
Ólafur H. Johnson, skólastjóri Menntaskólans Hraðbraut

Í nýrri greinargerð Ríkisendurskoðunar kemur fram að á tímabilinu 2003-2009 hafi arðgreiðslur Menntaskólans Hraðbraut til eigenda hans numið samtals 82 milljónum króna.

Ríkisendurskoðun telur að skólinn hafi í raun ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að greiða þennan arð. Þá kemur fram að lán skólans til aðila tengdra eigendum hans hafi numið samtals 50 milljónum króna í árslok 2009. Að mati Ríkisendurskoðunar eru þessar lánveitingar óeðlilegar enda tengjast þær ekki rekstri skólans. Stofnunin telur óvíst að fjárhagslegar forsendur séu fyrir áframhaldandi rekstri hans.

Fram kemur að á tímabilinu reyndust nemendur skólans um fimmtungi færri en áætlanir samningsins gerðu ráð fyrir. Framlög ríkisins voru hins vegar miðuð við þessar áætlanir og fékk skólinn samtals 192 milljónir króna umfram það sem honum bar á tímabilinu.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun ekki fara fram á að skólinn endurgreiði ofgreidd framlög á tímabilinu 2004-2006 en þau nema rúmlega 126 milljónum króna. Að mati Ríkisendurskoðunar hefur ráðuneytið ekki heimild til að gefa eftir þessa skuld. Þess má geta að á umræddu tímabili nam hagnaður skólans um 57 milljónum króna og arðgreiðslur til eigenda um 24 milljónum. Lán skólans til aðila tengdra eigendum hans námu 16 milljónum í árslok 2006.

Samkvæmt skýru ákvæði í þjónustusamningnum skal árlega fara fram uppgjör þar sem áætlun um nemendafjölda og framlög er borin saman við rauntölur. Í greinargerðinni segir að slíkt uppgjör hafi aldrei farið fram og er það gagnrýnt.

Mennta- og menningamálaráðuneytið óskaði eftir því við Ríkisendurskoðun í júnímánuði að könnuð yrði framkvæmd þjónustusamnings ráðuneytisins við Hraðbraut ehf. sem rekur Menntaskólann Hraðbraut. DV hafði þá fjallað um afskriftir og arðgreiðslur Hraðbrautar.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar í heild sinni.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×