Viðskipti innlent

Seðlabankinn hyggur á gjaldeyriskaup

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.

Ástæður þess að stýrivextir voru lækkaðir um heilt prósent í dag eru minni verðbólga, lægri verðbólguvæntingar, sterkara gengi krónunnar og horfur á hraðari hjöðnun verðbólgu en áður var reiknað með. Þetta kom fram á fundi í Seðlabanka Íslands í morgun.

Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um heilt prósent, en síðan í janúar hefur takturinn í vaxtalækkunum bankans verið hálft prósent í hvert skipti.

Á fundinum var einnig rætt um gjaldeyrishöft. Enn ríkir óvissa um hvenær hægt verði að byrja að leysa höftin, og því erfitt að spá fyrir um hvaða áhrif losun hafta hefur á vaxtastefnuna næstu mánuði.

Að lokinni þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins munu forsendur fyrir afnámi haftanna þó vera til staðar hvað varðar gjaldeyrisforða og þjóðhagslegan stöðugleika. Hins vegar valda nýlegir dómar Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar þvílíkri óvissu um styrk fjármálakerfisins að endurskoða þarf áætlun um afnám haftanna.

Legið hefur fyrir að Seðlabankinn myndi auka þann hluta gjaldeyrisforðans sem ekki er fenginn að láni á næstu misserum. Nú telur bankinn að gengishækkun krónunnar og lækkandi áhættuálag á íslenskar skuldir gefi svigrúm til gjaldeyriskaupa í þessu skyni. Bankinn mun hefja gjaldeyriskaup þann 31. ágúst næstkomandi, en umfang þeirra verður ákveðið með það að leiðarljósi að áhrif á gengi krónunnar verði sem minnst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×