Körfubolti

Bæði Þórsliðin taplaus á toppnum í 1. deild karla í körfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benedikt Guðmundsson byrjar vel í Þorlákshöfn
Benedikt Guðmundsson byrjar vel í Þorlákshöfn
Þórsarar eru í tveimur efstu sætunum í 1. deild karla í körfubolta eftir leiki kvöldsins. Þorlákshafnar-Þórsarar unnu FSu á heimavelli sínum í Suðurlandsslag á sama tíma og Akureyrar-Þórsarar sóttu tvö stig í Kópavoginn.

Benedikt Guðmundsson byrjar vel með lið Þórs úr Þorlákshöfn en liðið vann öruggan ellefu stiga sigur á nágrönnum sínum í FSu, 88-77, í Þorlákshöfn í kvöld.

FSu er undir stjórn Vals Ingimundarsonar og hafði unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni. Það var aldrei spurning um hvort liðið væri sterkara í kvöld því Þórsliðið var komið í 29-16 eftir fyrsta leikhlutann og var 18 stigum yfir í hálfleik, 54-36.

Eric James Palm var með 26 stig fyrir Þór, Vladimir Bulut skoraði 20 stig og Philip Perre var með 19 stig. Hjalti Valur Þorsteinsson var stigahæstur íslensku leikmannanna með 10 stig.

Richard Field var með 33 stig og 16 fráköst fyir FSU og sonur þjálfarans, Valur Orri Valsson, skoraði 23 stig.

Þór Akureyri vann þrettán stiga sigur á Blikum í Kópavogi 81-68 en það voru ekki bara leikmenn Breiðabliks sem klikkuðu í kvöld því Blikar voru ekki með leikinn í beinni tölfræðilýsingu á netinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×