Orðskýringaspilið Alias sló í gegn fyrir síðustu jól þegar hátt í fimmtán þúsund eintök seldust hér á landi. Hamra á járnið meðan það er heitt því nýtt spil er væntanlegt um miðjan nóvember sem nefnist Partý-Alias.
„Við erum að gera okkur vonir um að það seljist svipað ef ekki meira en Alias fór í fyrra,“ segir Halldór Guðjónsson, sölustjóri Myndforms.
Partý-Alias inniheldur ýmsar nýjungar. Leikmenn geta fengið það hlutskipti að segja sögu sem inniheldur öll orð viðkomandi spjalds, lýsa frægum einstaklingum eða útskýra orð í mismunandi stellingum. Spilið inniheldur meira en 2.300 orð og nöfn á yfir sex hundruð frægum einstaklingum, þar á meðal 130 íslenskum.
Fjölmörg kreppuspil komu út í fyrra og gaf Myndform einmitt út það vinsælasta, Ísland. Það seldist í tvö þúsund eintökum.
Svo virðist sem kreppuspilin verði heldur færri fyrir þessi jól, enda kannski komið nóg af slíkum spilum í bili.
- fb