Skoðun

Á stjórnlagaþing að fjalla um samband ríkis og kirkju?

Eyjólfur Ármannsson skrifar

Stjórnlagaþingið á ekki að fjalla um samband ríkis og kirkju. Ástæðan fyrir því er einföld. Samband ríkis og kirkju er ekki eitt af þeim viðfangsefnum sem stjórnlagaþinginu er sérstaklega ætlað að fjalla um. Í lögum um stjórnlagaþing segir að það skuli sérstaklega taka til umfjöllunar eftirfarandi þætti:

1. Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar.

2. Skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra.

3. Hlutverk og stöðu forseta lýðveldisins.

4. Sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds.

5. Ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan.

6. Lýðræðislega þátttöku almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

7. Framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála.

8. Umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda.

Í lögunum kemur einnig fram að þingið geti ákveðið að taka til umfjöllunar fleiri þætti. Það ætti þingið ekki að gera. Mikilvægt er að stjórnlagaþingið, sem er ráðgjafarþing, einbeiti sér að þeim viðfangsefnum sem Alþingi hefur falið því að fjalla sérstaklega um. Þetta eru atriði sem eru gríðarlega mikilvæg og þarfnast vandaðar umræðu innan þeirra tímamarka sem þinginu er ætlað að starfa.

Til stjórnlagaþingsins er stofnað vegna nauðsynjar á endurskoðun á grundvelli íslenska stjórnkerfisins í kjölfar efnahagshrunsins í október 2008.

Ég tel að þjóðin sjálf eigi að taka afstöðu til sambands ríkis og kirkju ekki stjórnlagaþingið. Það væri að dreifa kröftunum að fara út í umræður um samband ríkis og kirkju á stjórnlagaþinginu miðað við verkefni þess og aðstæður þjóðfélaginu í dag. Breytum stjórnskipaninni með aðskilnaði framkvæmdavalds og löggjafarvalds með persónukjöri bæði handhafa framkvæmdavalds (forseta) og alþingismanna. Eflum þannig löggjafarhlutverk Alþingis og eftirlitshlutverk þess með framkvæmdavaldinu og aukum ábyrgð og skilvirkni í stjórnkerfinu. Það er ærið verkefni.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×