Innlent

Bíður eftir borgarstjóra en er númer 200 í röðinni

Jón Gnarr borgarstjóri.
Jón Gnarr borgarstjóri.

Móðir barns í Ölduselsskóla í Breiðholti tekur undir þær gagnrýnisraddir sem heyrst hafa að undanförnu þess efnis að erfitt sé að komast í samband við Jón Gnarr borgarstjóra Reykjavíkur. Guðjón Arnar Kristjánsson fyrrverandi formaður Frjálslynda flokksins sagði í viðtali á Vísi í gær að erfiðara væri að komast í samband við Jón en Osama bin Laden.

„Ég tek undir þetta," segir Júlía Hjaltadóttir, foreldri í Ölduselsskóla og meðlimur í stjórn foreldrafélags skólans. Fyrir síðustu mánaðarmót hringdi hún í ráðhúsið og óskaði eftir viðtali við Jón Gnarr en hún vill ræða við hann um ástand skólalóðarinnar í Ölduselsskóla. Þá var henni tjáð að aðeins væri hægt að panta tíma með bogarstjóra með tölvupósti. Það gerði Júlía 24. ágúst síðastliðinn og hún bíður enn eftir borgarstjóranum. „Svarið sem ég fékk var sjálfvirkt en þar sagði að beiðnin yrði tekin til greina og tími fundinn."

„Ég skrifaði svo til baka 30. ágúst þar sem ég spurði hvort það væri venjan að bíða í viku eftir viðtali við borgarstjóra. Ef svo væri fyndist mér það lélegt. Ég fékk svo svar þar sem mér var tjáð að um 200 manns væru á biðlista. En ef svo er, af hverju er þá ekki hægt að gefa mér tíma og segja mér hvar ég er í röðinni?," spyr Júlía sem finnst hart að bíða í þetta langan tíma án þess að hægt sé að fá dagsetningu á fundinn.

„Samt hefur hann tíma til að vera í mótmælum og taka þátt í Popppunkti, sem er sennilega tekinn upp á miðjum degi. Hvernig er forgangsröðunin eiginlega hjá honum?"

Júlía vill ræða ástandið á skólalóðinni í Ölduselsskóla. „Mér skilst að skólar í Breiðholti hafi fengið fjármagn til að taka lóðirnar í gegn hjá sér og ekki hef ég séð nein merki um það," segir Júlía en að hennar mati er lóðin til háborinnar skammar. „Ég sé ekki þetta bætta Breiðholt sem hann hefur verið að tala um," segir Júlía Hjaltadóttir að lokum.








Tengdar fréttir

Erfiðara að fá fund með Jóni Gnarr en Bin Laden

„Við höfum engin svör fengið," segir Guðjón Arnar Kristjánsson fyrrverandi formaður Frjálslynda flokksins. Hann hefur ásamt, Sigurjóni Þórðarsyni, formanni Frjálslynds flokksins, ítrekað óskað eftir fundi með borgarstjóra Reykjavíkur, Jóni Gnarr. Sigurjón segist alltaf fá þau svör að borgarstjóri sé of upptekinn til að veita honum móttöku. Honum finnst þetta óeðlilegt afgreiðsla enda sé hann í forsvari fyrir starfandi stjórnmálaafl á Íslandi og telur hreinlega að um andúð Jóns Gnarr í garð Frjálslynda flokksins sé að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×