Formúla 1

Heidfeld spenntur fyrir endurkomuna í fljóðljósunum í Singapúr

Nick Heidfeld er nú ökumaður BMW Sauber, en hann ók með sama liði í fyrra, en notar núna Ferrari vél þó BMW nafnið sé enn til staðar.
Nick Heidfeld er nú ökumaður BMW Sauber, en hann ók með sama liði í fyrra, en notar núna Ferrari vél þó BMW nafnið sé enn til staðar. Mynd: Getty Images

Formúlu 1 ökumaðurinn Nick Heidfeld var nýlega ráðinn ökumaður Sauber liðsins í stað Pedro de la Rosa og keppir í Singapúr um næstu helgi í flóðlýstri keppni. Heidfeld var ökumaður BMW í fyrra, en var síðan varaökumaður Mercedes þar til Pirelli dekkjafyrirtækið réð hann til sín sem þróunarökumann á dögunum.

Heidfeld hefur nú eftir skamma viðdvöl losnað undan samningi við Pirelli og mun aka með Sauber út árið, eða BMW Sauber eins og það heitir ennþá, þó liðið noti Ferrari vélar.

"Ég get ekki beðið eftir því að komast í keppnisbíl. Ég hlakka til að keppa á ný og það er bónus að keppa í Singapúr. Fyrir tveimur árum þá varð þessi braut í uppáhaldi hjá mér", sagði Heidfeld í tilkynningu frá liðinu á f1.com. Mótið í Singapúr er eina flóðlýsa mót ársins.

Brautin er erfið að mati Heidfelds, þó um götubraut sé að ræða og verður fróðlegt að sjá hvernig hefur tekist til með mishæðirnar í brautinni. Hún var malbikuð upp á ný að hluta eftir kvartanir ökumanna eftir tvö fyrstu mótin og versnaði brautin á mili ára að mati Heidfelds.

"Stemmningin á brautinni er mögnuð. Ég veit ekki hvernig bíllinn hentar brautinni þar sem ég hef ekki keyrt hann", sagði Heidfeld um komandi átök.

"En miðað við allt sem ég hef heyrt og séð, þá ætti bíllinn að vera betri í Singapúr en á Monza. Það er líka jákvætt að ég get notað sætið úr bílnum mínum frá því í fyrra, sem er gott, því sætið var sniðið að mér og þægilegt. Það tekur tíma að útbúa gott sæti í keppnisbíla. Ég hlakka líka til að vinna með James Key og Kamui (Kobayashi), liðsfélaga mínum", sagði Heidfeld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×