Fyrirsvarsmenn nítján félaga í Lúxemborg og Banque Havilland bankinn vilja ekki að sérstakur saksóknari fái gögn úr bankanum afhent. Beðið er úrskurðar rannsóknardómara í Lúxemborg um afhendingu gagnanna.
Rannsókn á allsherjarmarkaðsmisnotkun hjá Kaupþingi banka hefur nú staðið yfir í tæpt ár, eða síðan Fjármálaeftirlitið kærði málið til sérstaks saksóknara í október 2009.
Málið er gríðarlega umfangsmikið en í maí síðastliðnum voru nokkrir fyrrverandi lykilstjórnendur Kaupþings úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna þess. Þá kom Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, loksins til landsins og mætti í skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara hinn 19. ágúst.
Rannsókn málsins er í nokkurs konar biðstöðu sem stendur, samkvæmt heimildum fréttastofu, því enn er beðið eftir gögnum úr húsleit sem framkvæmd var hinn 12. febrúar síðastliðinn hjá Banque Havilland í Lúxemborg, sem áður var dótturfélag Kaupþings.
Ástæða tafanna er sú að afhending gagnanna til sérstaks saksóknara hefur verið kærð. Um er að ræða kærur frá fyrirsvarsmönnum tiltekinna félaga, alls nítján talsins, og bankanum sjálfum, Banque Havilland. Þeir vilja ekki að gögnin verði afhent og hafa þarlendir lögmenn þeirra lagt fram kröfur þess efnis fyrir sérstakan rannsóknaradómara í Lúxemborg sem metur hvort réttarbeiðni sérstaks saksóknara nái til þeirra gagna sem voru haldlögð í húsleitinni hinn 12. febrúar. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur sérstakur saksóknari ekki fengið upplýsingar um nákvæmlega hverjir standi að baki þeim félögum sem hafa kært afhendingu gagnanna, en ekki hafa fengist svör við því hvort félögin tengist sakborningum í rannsókninni hér heima á Íslandi.
Rannsóknaradómarinn í Lúxemborg mun ekki úrskurða um afhendingu gagnanna fyrr en í nóvember næstkomandi. Nokkuð er í að rannsókn málsins ljúki, en talið er að gögnin frá Lúxemborg geti skipt sköpum fyrir rannsóknina og á meðan þau liggja ekki fyrir er málið í biðstöðu.