Íslenski boltinn

Kristín Ýr: Ég og Hallbera náum rosalega vel saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristín Ýr Bjarnadóttir.
Kristín Ýr Bjarnadóttir. Mynd/Valli
Kristín Ýr Bjarnadóttir var í miklu stuði á Vodafone-vellinum í dag þegar hún skoraði þrennu í 3-0 sigri Vals á Þór/KA í undanúrslitaleik VISA-bikars kvenna.

„Þetta var heldur betur góður dagur. Það er alltaf frábært að skora og alltaf jafn skemmtilegt þegar Valur skorar. Ég hata það ekkert ef ég skora en ég er jafnánægð ef einhver annar skorar í liðinu. Þessi leikur var frábær undirbúningur fyrir bikarúrslitaleikinn," sagði Kristín Ýr kát í leikslok.

Kristín Ýr Bjarnadóttir skoraði tvö fyrstu mörkin sín eftir glæsilegar fyrirgjafir frá Hallberu Guðnýju Gísladóttur.

„Ég og Hallbera náum rosalega vel saman bæði innan vallar sem utan og þessi mörk voru engin tilviljun því við erum búnar að æfa þetta allt saman," sagði Kristín Ýr. Hún innsiglaði síðan þrennuna af vítapunktinum.

„Við Hallbera erum svo góðar vinkonur að ég gaf henni síðustu vítaspyrnu. Ég ákvað að vera svolítið kurteis núna og spurði ég Guðnýju hvort hún vildi taka vítið í dag. Ég vonaði samt að hún segði nei og það gerði hún," sagði Kristín Ýr en Guðný Björk Óðinsdóttir fiskaði vítið.

„Við ákváðum að fara Krísuvíkurleiðina í bikarnum. Okkur finnst alltaf jafn skemmtilegt þegar fólk er að segja að við séum áskrifendur að titlunum og að við förum alltaf auðveldu leiðina. Núna held ég að við séum búnar að svara því ágætlega," sagði Kristín Ýr en Valur hafði unnið Breiðablik og Fylki á útivelli á leið sinni í undanúrslitin.

Kristín Ýr vildi hrósa markverði liðsins Maríu Björgu Ágústsdóttur sem lokaði markinu vel þegar Þór/KA fékk færin sín í dag.

„Ef Mæja væri ekki í markinu hjá okkur þá veit ég ekki hvað við myndum gera. Þetta er besta tímabilið hennar og hún er svo klárlega í landsliðsklassa að það hálfa væri nóg. Hún er búin að halda okkur inn í leikjum þegar við missum einbeitinguna. Lið eins og Þór/KA og Breiðabliks sem eru með rosalega fljóta framherja fá alltaf færi á móti okkur en Mæja en er með þær í vasanum og er að bjarga okkur," segir Kristín Ýr.

„Við fórum yfir nokkur vel valin atriði í hálfleik og bættum það sem þurfti að bæta. Við erum mjög þolinmóðar ungar stúlkur og fengum mörkin síðan í lokin," sagði Kristín Ýr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×