Handbolti

Björgvin Páll í miklu stuði í seinni og Ísland vann Spán

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson var frábær í seinni hálfleiknum.
Björgvin Páll Gústavsson var frábær í seinni hálfleiknum. Mynd/Getty Images

Íslenska karlalandsliðið í handbolta vann góðan þriggja marka sigur á Spánverjum, 30-27, í undanúrslitaleik liðanna á hraðmótinu í Bercy-höllinni í París í Frakklandi. Björgvin Páll Gústavsson var maður seinni hálfleiksins þar sem að hann varði fjórtán af 19 skotum sínum í leiknum.

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í íslenska liðinu með sex mörk en hann skoraði fimm af þeim í seinni hálfleiknum. Róbert Gunnarsson, Snorri Steinn Guðjónsson og Ólafur Stefánsson skoruðu síðan allir fimm mörk.

Íslenska liðið byrjaði leikinn ágætlega, náði mest þriggja marka forskoti um miðjan hálfleikinn og var síðan tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14-12, eftir að hafa skorað tvö síðustu mörk hans.

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn vel og náði strax þriggja marka forskoti. Íslensku strákarnir héldu því um stund og komust í 15-12, 16-13 og 18-15. Björgvin Páll varði vel í markinu á þessum tíma.

Þá kom slæmur kafli þar sem íslenska liðið missti tvo menn útaf í tvær mínútur og Spánverjar nýttu sér það og jöfnuðu leikinn í 18-18.

Spánverjum tókst þó ekki að komast yfir og íslenska liðið var enn með frumkvæðið ekki síst þökk sé Björgvin Páli Gústavssyni í markinu en hann varð 7 skot á fyrstu fimmtán mínútum seinni hálfeiks.

Íslenska liðið náði í kjölfar markvörslu Björgvins flottum spretti og komst í 22-19 eftir þrjú mörk í röð - tvö frá Guðjóni Val Sigurðssyni og eitt frá Ásgeiri Erni Hallgrímssyni.

Ísland var með öll völd á næstu mínútum, náði fjögurra marka forskoti í tvígang, 26-22 og 27-23 og komst síðan mest fimm mörkum yfir,28-23, þegar fjórar mínútur voru eftir.

Spánverjar voru þó ekki því að gefast upp og náðu að minnka muninn í tvö mörk, 28-26, þegar rúm mínúta var eftir. Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari tók þá leikhlé og íslenska liðið svaraði með því að klára leikinn.

Ísland-Spánn 30-27 (14-12)

Mörk Íslenska liðsins í leiknum:

Guðjón Valur Sigurðsson 6

Snorri Steinn Guðjónsson 5/4

Ólafur Stefánsson 5/1

Róbert Gunnarsson 5

Alecxander Petersson 3

Ásgeir Örn Hallgrímsson 2

Sverre Jakobsson 2

Ingimundur Ingimundarson 1

Arnór Atlason 1

Varin skot:

Björgvin Páll Gústavsson 19






Fleiri fréttir

Sjá meira


×