Lífið

Rændar tvisvar sama daginn

Ása Rán ásamt ferðafélaga sínum, Anítu Hafdísi Björnsdóttur. Þær seldu eigur sínar og hyggjast ferðast um heiminn næstu tvö árin. Á myndinni eru stúlkurnar ferðbúnar á vespum á Balí í Indonesíu.
Ása Rán ásamt ferðafélaga sínum, Anítu Hafdísi Björnsdóttur. Þær seldu eigur sínar og hyggjast ferðast um heiminn næstu tvö árin. Á myndinni eru stúlkurnar ferðbúnar á vespum á Balí í Indonesíu.

Áslaug Rán Einarsdóttir, eða Ása eins og hún er kölluð, og Anita Hafdís Björnsdóttir ákváðu í desember að hætta í vinnu sinni, selja eigur sínar og halda á vit ævintýranna.

Stúlkurnar stunda báðar svifvængjaflug og munu ferðast um heiminn næstu tvö árin og stunda íþróttina. Þær settu einnig á laggirnar verkefni sem kallast The Flying Effect í samstarfi við UNIFEM á Íslandi og er verkefninu ætlað að vekja athygli á frelsismálum kvenna á heimsvísu.

„Við byrjuðum ferðalagið í Nepal sem var yndislegt fyrir utan magapestina sem ég held að allir fá þegar þeir koma til landsins. Því næst tókum við strætó yfir til Indlands og dvöldum þar í tvo mánuði,“ segir Ása Rán. Stúlkurnar lentu tvisvar í óprúttnum aðilum á leið sinni til Indlands, en Ása Rán segir þó flesta Indverjar vera gott fólk og gestrisið.

„Við vorum rændar á fyrsta degi í Indlandi, eiginlega um leið og við komum yfir landamærin. Þá komu tveir menn inn í vagninn og hræddu okkur upp úr skónum, tóku af okkur lestarmiðana okkar og fengu okkur svo til að kaupa þá aftur. Stuttu síðar gerðist þetta aftur þannig að við enduðum á því að þríkaupa lestarmiðana okkar. Þegar við svo komum loks á lestarstöðina þá var búið að aflýsa ferðinni.“

Ása Rán og Aníta ferðuðust því næst til Taílands og Malasíu en ferðalaginu lauk í Frakklandi. Ása hyggst dvelja hér á landi fram á haust þegar ferðalaginu verður haldið áfram og þá um Suður-Ameríku. Innt eftir því hvort hún þreytist ekki á því að stunda svifvængjaflug eins mikið og hún gerir svarar hún því neitandi. „Þetta er alltaf jafn gaman. En það koma dagar þar sem ég er hræddari en venjulega því, ótrúlegt en satt, þá er ég mjög lofthrædd og áður en ég byrjaði á þessu gat ég ekki einu sinni staðið uppi á stól,“ segir Ása Rán að lokum.

Www.theflying­effect.wordpress.com er vefsíða stelpnanna.-sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.