Innlent

Bjarni fékk ekkert fundarboð

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fékk ekkert fundarboð á fund ríkisstjórninnar með stjórnarandstöðunni í morgun. Hann segist tilbúinn í samstarf við ríkisstjórnina en segist ekki tilbúinn að taka þátt í einhverju sýndarsamráði.

Bjarni sagðist um helgina vera tilbúinn til samráðs um árangur. Hann væri hins vegar ekki tilbúinn að taka þátt í einhverju sýndarsamráði um tæknilegar útfærslur á skuldavanda heimilanna á sama tíma og ríkisstjórnin væri á kolrangri braut í öllum málum. Bjarni sagðist í viðtali við Morgunblaðið ekki kalla það samráð þegar ríkisstjórnin ákvæði hvað skyldi rætt og hvenær. Með því væri einungis verið að reyna að draga athyglina frá vandræðum stjórnarinnar enda væri það skyndilega orðið aðalatriði málsins hvort stjórnarandstaðan væri boðið á fund upp í Stjórnarráð.

Bjarni segist ekki hafa fengið neitt fundarboð á fund ríkisstjórnarinnar með fulltrúum stjórnarandstöðunnar í morgun. Enginn frá ríkisstjórninni hafi gert tilraun til að hafa samband.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur afstaða formanns Sjálfstæðisflokksins ekkert breyst í afstöðunni til samvinnu með ríkisstjórninni. Hann er tilbúinn í samstarf við ríkisstjórnina í tilteknum málum. Það hafi staðið aldrei staðið á Sjálfstæðisflokknum að efna til samráðs um mikilvæg mál. Það hafi hins vegar staðið á ríkisstjórninni. Bjarni vill að það samráð sem eigi sér stað þurfi að vera um lausnir á brýnustu verkefnunum, þá þurfi að vera til staðar skuldbinding um árangur og þá þurfi að tímasetja hvenær menn ætli að skila þeim árangri í hús.

Bjarni var á fundi með þingflokki Sjálfstæðisflokksins í allan morgun og því var hann ekki í aðstöðu til að veita viðtal.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×