Viðskipti innlent

Róbert Wessman birtir starfslokasamning sinn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Róbert Wessman hefur birt starfslokasamning sinn.
Róbert Wessman hefur birt starfslokasamning sinn.
Róbert Wessman þvertekur fyrir það að hafa verið rekinn úr starfi sem forstjóri lyfjafyrirtækisins Actavis árið 2008. Björgólfur Thor Björgólfsson hefur haldið því fram að Róberti hafi verið vikið úr starfi forstjóra eins og fram kemur á nýrri heimasíðu hans. Róbert hafnar því hins vegar alfarið og hefur máli sínu til stuðnings ákveðið að birta afrit af starfslokasamningi sínum við Actavis

„Við gerðum formlegan samning um starfslokin og þar kemur hvergi fram að mér hafi verið vikið úr starfi heldur þvert á móti er tekið fram að samkomulag hafi náðst. Tekið er fram að uppsagnarfrestur verði greiddur sem var sex mánuðir og að ég styðji yfirfærslu verkefna til nýs forstjóra og verði aðgengilegur eftir þörfum. Ljóst má vera að hefði verið um brottrekstur að ræða hefðu bæði samningur og greiðslur til mín verið á annan veg. Ég vildi einfaldlega snúa mér að mínum eigin fjárfestingum og leiðir okkar skildu. Mér finnst áríðandi að rétt sé farið með þetta mál," segir Róbert.

Róbert segir að varnarbarrátta Björgólfs til að verja skaddað mannorð sitt hafi nú tekið á sig nýja mynd og fjöldi manns vinni hörðum höndum til þess eins að þeyta ryki í augu almennings. Björgólfur virðist hreinlega neita að axla sína ábyrgð á þeim hrunadansi sem hér hafi orðið. Ekki verði hjá því komist að velta fyrir sér þeim kostnaði sem Björgólfur hafi nú varið í spunameistaravinnu og væri þeim peningum nú ekki betur varið í uppgjöri á skuldum fyrirtækja hans.

„Ég ætla mér ekki munnhöggvast við Björgólf í fjölmiðlum en hvet hann eindregið til að verja sín umsvif í íslensku viðskiptalífi með staðreyndum en ekki endurteknum rangfærslum," segir Róbert.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×