Það var milli klukkan tvö og þrjú í nótt sem vísindamenn tóku eftir breytingum í Grímsvötnum en þá fóru mælar skyndilega að sýna meiri óróa. Að sögn Páls Einarssonar prófessors hefur þessi órói verið nokkuð stöðugur síðan og stendur enn yfir. Páll telur þrennt geta skýrt þennan aukna óróa. Breyting gæti hafa orðið í vatnsrásinni og hlaupið vaxið skyndilega, breyting gæti hafa orðið á suðu í jarðhitakerfinu, og þriðji möguleikinn sé sá að örlítið gos hafi hafist þarna í nótt.

Eins og menn muna frá eldgosinu í Eyjafjallajökli er Gæsluvélin búin mjög fullkomnum búnaði til að greina eldsumbrot í gegnum skýjahulu, meðal annars hitamyndavél, en búist er við að hún verði komin yfir svæðið laust fyrir klukkan hálfeitt. Þá ætti að skýrast hvort eldgos sé hafið í Grímsvötnum eða hvort eitthvað annað skýri óróann sem þar hófst í nótt.
Kvikmyndatökumaður Stöðvar 2 er einnig um borð í Gæsluvélinni og verða myndir úr fluginu væntanlega sýndar á fréttavefnum visir.is síðar í dag og í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.