Fótbolti

Balotelli mátti þola kynþáttaníð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Balotelli, til hægri, með Samuel Eto'o.
Balotelli, til hægri, með Samuel Eto'o. Nordic Photos / AFP
Sóknarmaðurinn Mario Balotelli, leikmaður Inter, segir að hann hafi mátt þola kynþáttaníð af hálfu stuðningsmanna Chievo í leik liðanna í fyrradag.

Balotelli skoraði sigurmarkið í leiknum en honum lauk með 1-0 sigri Inter. Leikurinn fór fram á heimavelli Chievo og var púað á Balotelli þegar honum var skipt af velli.

Balotelli svaraði með því að klappa kaldhæðnislega. Forráðamenn ítölsku úrvalsdeildarinnar ákváðu eftir þetta að sekta Balotelli um sjö þúsund evrur fyrir að ögra stuðningsmönnum Chievo.

„Ég ætla ekki að biðja þá sem móðguðu mig afsökunar," sagði Balotelli í yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu hans í gær. „En ég hefði átt að gera öllum ljóst að mér býður við þeim stuðningsmönnum í Verona og víðar á Ítalíu sem púa á mig. Þeir virðast frekar kjósa að móðga mig en að njóta knattspyrnunnar."

„Ég er orðinn þreyttur á að hlusta á kynþáttaníð þegar ég er inn á vellinum. Það gerist ekki aðeins í Verona. Ég skammaðist mín fyrir það þegar að stuðningsmenn Inter púuðu á Luciano hjá Chievo. Þetta er til háborinnar skammar og verður að hætta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×