Lífið

Bræður í norðlenskum gamanþáttum

Þeir Árni Pétur og Kjartan Guðjónssynir leika aðalhlutverkin í nýrri gamanþáttaseríu sem Skjár einn hyggst taka til sýningar í haust. Þórhallur Sigurðsson leikur pabba þeirra en tökur verða á Akureyri.
Þeir Árni Pétur og Kjartan Guðjónssynir leika aðalhlutverkin í nýrri gamanþáttaseríu sem Skjár einn hyggst taka til sýningar í haust. Þórhallur Sigurðsson leikur pabba þeirra en tökur verða á Akureyri.
Ný íslensk gamanþáttasería verður tekin til sýninga á Skjá einum í haust. Um er að ræða sex þætti sem teknir verða upp á Akureyri. Framleiðandi þáttanna er Baldvin Z og leikstjóri þeirra verður Arnór Pálmi en hann skrifaði handritið ásamt þeim Heiðari Mar og Katrínu Björgvinsdóttur. „Þetta er þáttaröð sem skartar bæði ungu fólki og þaulreyndu og okkur líst alveg ótrúlega vel á þetta,“ segir Kristjana Thors Brynjólfsdóttir, dagskrárstjóri Skjás eins. „Ég er búin að lesa handritið og sjá prufuþátt og þetta lítur alveg ótrúlega vel út,“ bætir hún við.

Baldvin Z vildi ekki gefa of mikið upp um innihald þáttana í samtali við Fréttablaðið. Hann segir þó að sögusviðið verði á Akureyri og við sögu komi bæði persónur frá höfuðstað norðurlands sem og færeyskar. „En ég ætla ekkert að fara nánar útí þá sálma,“ segir Baldvin. Stóru tíðindin eru þó eflaust þau að í aðalhlutverkum verða bræðurnir Árni Pétur og Kjartan Guðjónssynir. Árni Pétur leikur ramm-gagnkynhneigðan einkstaling sem er meinilla við homma. „Þetta er Eddu-verðlaunahlutverkið hans Kjartans,“ segir Baldvin og hlær en Kjartan impraði á því á síðustu Eddu-verðlaunum að hann hefði enn ekki fengið slíka styttu.

Enn á eftir að ganga frá skipan í minni hlutverk en Baldvin staðfestir þó að Þórhallur Sigurðsson leiki föður þeirra bræðra.-fgg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×