Handbolti

Landsliðsþjálfari Hvíta-Rússlands hrósar Íslendingum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Iouri Chevtsov.
Iouri Chevtsov. Nordic Photos / Bongarts
Iouri Chevtsov, landsliðsþjálfari Hvíta-Rússlands og fyrrum þjálfari Rhein-Neckar Löwen, hrósar þeim sterka liðsanda sem ríkir í íslenska landsliðinu í handbolta í pistli sínum á handball-world.com.

Hvít-Rússar eru ekki meðal þátttökuþjóða á EM í Austurríki sem hefst í næstu viku. Chevtsov verður þó í hlutverki álitsgjafa á áðurnefndri síðu og í sínum fyrsta pistli hrósar hann íslenska liðinu.

Hann segir að það sé algengt að leikmenn sem munu eigast við í Austurríki þekkist vel og spili jafnvel hjá sama félagsliði. En á meðan leiknum stendur eru þeir miklir andstæðingar og gefa ekkert eftir í baráttunni.

„Því getur líka verið öfugt farið," skrifar hann. „Samherjar hjá landsliðum geta svo orðið andstæðingar þegar félagslið þeirra mætast. Sem þjálfari hef ég til dæmis oft séð það hvernig íslenskir landsliðsmenn berjast með kjafti og klóm gegn hvorum öðrum þegar félagslið þeirra mætast. Þegar leiknum lýkur eru þeir svo bestu vinir á ný og þegar þeir spila svo saman í íslenska landsliðinu mynda þeir ógnarsterka liðsheild með ríkan liðsanda."

Chevtsov veltir því einnig fyrir sér hvaða leikmenn muni slá í gegn á mótinu og nefnir hann þekkt nöfn á borð við Karabatic, Narcisse, Vori og Balic. En hann á von á að ungir leikmenn eins og Aron Pálmarsson gætu komið mörgum á óvart í keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×