Erlent

Fastir í umferðarteppu í níu daga

Enn sér ekki fyrir endann á umferðarteppunni.
Enn sér ekki fyrir endann á umferðarteppunni. Mynd/AFP
Ökumenn á þjóðveginum á milli kínversku höfuðborgarinnar Peking og borgarinnar Jining eru væntanlega ekki ánægðir með lífið og tilveruna þessa dagana.

Þann 14. ágúst byrjaði þarna 100 kílómetra löng umferðarteppa sem enn sér ekki fyrir endann á, níu dögum seinna. Ástæðan er sú að óvenju margir flutningabílar voru á leið til höfuðborgarinnar um leið og viðgerðir á þjóðveginum hófust.

Vegurinn er lífæð fyrir Peking en þar búa um 20 milljónir manna. Berst eftir honum hráefni til framleiðslu, kol og fleiri vörur. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem gríðarleg umferðarteppa myndast á honum. Fyrr í sumar ferðaðist umferðin á hraða snigilsins í heilan mánuð.

Ekki kvarta allir. Kaupmenn á svæðinu stunda það að selja strandaglópum í bílum vatn og mat á uppsprengdu verði og hagnast gífurlega.

Kínverjar hafa síðustu ár unnið markvisst að stækkun þjóðvegakerfisins og lagt til þess himinháar fjárhæðir. Betur má þó ef duga skal því umferðarþunginn sprengir kerfið með þessum hætti með reglulegu millibili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×