Innlent

Toyota á Íslandi mun innkalla um 5000 bifreiðar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Toyota áætlar að kalla þurfi inn yfir 5.000 bíla á Íslandi vegna mögulegs vandamáls í eldsneytisgjöf. Umboðið mun hafa samband við eigendur viðkomandi bíla fljótlega og þeir beðnir að koma með bílinn til viðurkennds þjónustuaðila Toyota þeim að kostnaðarlausu.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Toyota umboðinu á Íslandi er ekki enn ljóst hver heildarfjöldi innkallaðra bifreiða í Evrópu verður en talið er að kalla þurfi inn allt að 1,8 milljón bíla.

Vandamálið getur komið upp vegna þess að um slit er að ræða í eldsneytisgjöfinni. Við ákveðnar umhverfis- og notkunaraðstæður getur þetta slit orðið til þess að núningur í eldsneytisgjöfinni eykst sem verður síðan til þess að af og til getur orðið erfiðara að stíga á bensíngjöfina, hún lyftist hægar til baka í upphafsstöðu eða í versta falli getur hún orðið föst að einhverju leyti í inngjafarstöðu.

„Toyota hefur alltaf lagt ofurkapp á að tryggja öryggi viðskiptavina sinna. Við munum því gera allt sem í okkar valdi stendur til að hefja þær fyrirbyggjandi aðgerðir sem félagar okkar hjá Toyota í Evrópu hafa boðað sem allra fyrst," segir Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi, í fréttatilkynningu sem send var fjölmiðlum vegna málsins.




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×