Vottunarstofan Tún hefur staðfest að fyrirtækin Sjóvík ehf. og Fram Foods Ísland hf. uppfylli kröfur Marine Stewardship Council (MSC) um rekjanleika sjávarafurða sem upprunnar eru úr MSC-vottuðum sjálfbærum fiskveiðum.
Vottorð þessa efnis voru afhent í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík í gær. Sjóvík og Fram Foods Ísland eru fyrstu íslensku fyrirtækin sem hljóta vottunina.
MSC-vottun staðfestir að hráefni og afurðir séu upprunnar úr sjálfbærum fiskistofnum. Slík vottun hefur breiðst hratt út á undanförnum árum samfara aukinni eftirspurn á alþjóðlegum mörkuðum eftir sjávarafurðum úr vottuðum nytjastofnum. Fram til þessa hafa íslensk fyrirtæki þurft að sækja vottunina til útlanda en MSC-vottunin greiðir þeim leið inn á ýmsa góða markaði.
Sjóvík er dótturfyrirtæki Icelandic Group sem fyrr á þessu ári sótti um MSC-vottun. Sjóvík á og rekur fiskvinnslu í Kína og Taílandi og sérhæfir sig í vinnslu á sérunnum afurðum úr Kyrrahafsþorski og Alaskaufsa.
Fram Foods Ísland var áður Bakkavör Ísland. Í verksmiðju fyrirtækisins í Reykjanesbæ eru framleiddar ýmsar afurðir úr hrognum bolfisks, grásleppu, loðnu og síldar.
- shá