Viðskipti erlent

Efnahagsbati Evrópu hefur stoppað

Samkvæmt nýjum tölum frá Eurostat hefur hinn veiki efnahagsbati í Evrópu nú stoppað. Tölurnar sýna að hagvöxtur á evrusvæðinu nam aðeins 0,1% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs en væntingar voru um að vöxturinn yrði 0,4%.

Það er gríska hagkerfið, ásamt því ítalska og spænska sem dregur úr hagvexti svæðisins ásamt því að tölur frá helstu aflvél svæðisins, Þýskalandi, valda miklum vonbrigðum. Hagvöxtur í Grikklandi var neikvæður um 0,8%, á Ítalíu var hann neikvæður um 0,6% og 0,1% á Spáni.

Í Þýskalandi varð enginn hagvöxtur á fjórða ársfjórðungi en væntingar voru um að hann myndi aukast um 0,2%. Eini ljósi punkturinn á evrusvæðinu er Frakkland þar sem hagvöxturinn jókst um 0,6%.

„Ef þýska aflvélin hikstar er erfitt að draga áfram afganginn af Evrópu," segir Frank Öland Hansen aðalhagfræðingur Danske Bank í samtali við Jyllands Posten um málið. „Þýskur útflutningur er í örum vexti en einkaneyslan og fjárfestingar halda hagvexti þar niðri."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×