Viðskipti erlent

Breti festi kaup á öllum kakóbaunabirgðum Evrópu

Breski fjárfestirinn Anthony Ward hefur fest kaup á öllum kakóbaunabirgðum Evrópu.Fyrir þær greiddi hann tæplega 660 milljónir punda eða um 124 milljarða kr.

Um er að ræða 241.000 tonn af kakóbaunum eða sem nemur ársnotkun á þeim í álfunni. Magnið er nóg til að framleiða 5,3 milljarða af venjulegum 125 gramma skúkkulaðistykkjum.

Um er að ræða stærstu einstöku kaup af kakóbaunum á síðustu 14 árum. Kaupin ollu mestu verðhækkunum á kakóbaunum síðan árið 1977 en kaupin koma í kjölfar frétta af slæmum uppskerum í Ghana og á Fílabeinsströndinni en þau lönd eru aðalframleiðendur á kakóbaunum í heiminum.

Kaupin fóru fram fyrir helgina og í fyrstu vissi enginn hver stóð að baki þeim. Ward notaði vogunarsjóðinn Armajaro Holdings til kaupanna en hann á hlut í honum.

Í frétt um málið í Telegraph segir að Ward hafi stundað svipuð viðskipti árið 2002 en þá hagnaðist hann um 40 milljónir punda á því að kaupa 240.000 tonn af kakóbaunum. Svipað og nú var slæm uppskera á kakóbaunum framundan í Afríku.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×