Handbolti

Öruggur sigur hjá Íslandi gegn Noregi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Róbert Gunnarsson átti flottan leik á línunni.
Róbert Gunnarsson átti flottan leik á línunni.

Snorri Steinn Guðjónsson og Arnór Atlason komu í leitirnar í dag þegar Ísland vann Noreg, 35-29, í bronsleik Heimsbikarmótsins í Svíþjóð. Staðan í hálfleik var 18-16 fyrir Ísland.

Það var ljóst frá upphafi að Guðmundur þjálfari ætlaðist til þess að þeir Snorri Steinn og Arnór myndu sýna sitt rétta andlit á ný í leiknum því þeir byrjuðu leikinn og spiluðu nánast allt til enda. Snorri spilaði allan leikinn en Arnór hvíldi lítið.

Þeir félagar svöruðu kalli þjálfarans með stæl og áttu báðir stórleik rétt eins og Róbert Gunnarsson sem var ekki að spila sinn besta leik í gær.

Snorri stýrði leik liðsins eins og herforingi, skoraði góð mörk og bjó til fjölmörg önnur. Skotógnunin kom aftur frá Arnóri sem gerði falleg mörk og var gaman að sjá hann spila aftur af sjálfstrausti sem virðist hafa vantað upp á síðkastið.

Íslenska liðið tók völdin strax í upphafi og leiddi allt til enda. Varnarleikurinn var lengstum mjög sterkur og hreyfanlegur. Fyrir aftan hana átti Sveinbjörn Pétursson sannkallaðan stórleik í aðeins sínum öðrum landsleik. Mögnuð frammistaða hjá honum.

Varnarleikurinn datt ekki eins oft niður og í gær. Sóknarleikurinn var miklu agaðri og hraðari. Með öðrum orðum var allt annað að sjá til liðsins og mikill stígandi frá leiknum í gær sem og frá leikjunum í undankeppni EM á dögunum.

Það verður að taka með í reikninginn að Norðmenn voru ekki að spila á sínu sterkasta liði og vantaði mikið í það. Engu að síður kláruðu strákarnir okkar sína hluti með glans og unnu verðskuldaðan stórsigur sem hefði hæglega getað verið stærri.

Alexander Petersson átti einnig fínan leik og þeir Sverre og Ingimundur bundu vörnina saman af myndarskap.

Leikurinn var jákvætt skref í rétta átt eftir frekar brösótt gengi og bestu tíðindin af öllum eru þau að tveir af lykilmönnum liðsins virðast loksins komnir í gang á nýjan leik.

Ísland-Noregur 35-29 (18-16)

Mörk Íslands (skot): Snorri Steinn Guðjónsson 8/3 (14/4), Arnór Atlason 7 (10), Alexander Petersson 7 (10), Róbert Gunnarsson 6 (8), Arnór Þór Gunnarsson 2 (2), Sturla Ásgeirsson 2 (3), Ingimundur Ingimundarson 1 (1), Oddur Gretarsson 1 (1), Bjarni Fritzson 1/1 (2/1).

varin skot: Sveinbjörn Pétursson 19 (48) 40%.

Hraðaupphlaup: 4 (Ingimundur, Arnór, Alexander, Sturla).

Fiskuð víti: 5 (Arnór, Róbert, Aron, Ásgeir, Snorri).

Utan vallar: 6 mínútur.

Mörk Noregs (skot): Johannes Hippe 5 (10), Magnus Jöndal 5 (7), Erlend Mamelund 4 (6), Vegard Samdahl 3 (5), Espen Hansen 2 (2), Christian Spannel 2 (2), Sindre Paulsen 2 (4), Joakim Hykkerud 2 (3), Jan Hansen 2 (2), Kent Tönnesen 2 (4).

Varin skot: Steinar Ege 9 (26/2) 35%, Sven Erik Medhus 5 (23/3) 22%.

Hraðaupphlaup: 5 (Hippe 2, Jöndal 2, Mamelund).

Fiskuð víti: 0.

Utan vallar: 4 mínútur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×