Handbolti

Sturla: Ungu strákarnir sýndu að þeir eru tilbúnir

Smári Jökull Jónsson í Malmö Arena skrifar
Sturla í leik með Val,
Sturla í leik með Val,

Hornamaðurinn Sturla Ásgeirsson var nokkuð sáttur með niðurstöðuna úr leikjunum gegn Svíum og Norðmönnum á heimsbikarmótinu í Svíþjóð.

„Það er gott að fá þessa leiki fyrir Heimsmeistaramótið og sjá hvar við stöndum. Það vantaði leikmenn í hópinn en það fá þá aðrir tækifæri í staðinn. Leikurinn í gær var ekkert sérstakur en við spiluðum betur í dag og allir að skila sínu hlutverki sem skilaði góðum sigri.

Það voru ungir strákar með í þessu móti sem verða að sýna að þeir eru tilbúnir í þetta. Það er fínt að eiga þá inni og þeir eiga bara eftir að vaxa og dafna með árunum þannig að ég held að framtíðin hjá okkur sé nokkuð björt.“

Sturla hefur átt við meiðsli og stríða og er nýfarinn að spila á nýjan leik með Valsmönnum sem hafa átt erfitt uppdráttar í N1-deildinni.

„Ég er eiginlega búinn að missa af öllum leikjum heima hingað til. Missti af öllum undirbúningum og búinn að spila að ég held fimm leiki með Val auk þessara tveggja með landsliðinu. Þannig að ég er að komast af stað eftir erfiðan og leiðinlegan tíma. Það er ágætt að skipta aðeins umhverfi og hitta strákana, verst að maður losnaði ekki við Óskar Bjarna (þjálfara Vals).

Það er gott að bera sig saman við toppleikmenn í heiminum og sjá í hvaða formi maður er svo maður geti bætt það sem þarf að bæta ef maður ætlar sér að vera gjaldgengur fyrir mótið í janúar. Ég þarf bara að vinna í mínum málum og komast í enn betra stand, það er ekki spurning."

Sturla sagði spenning í hópnum fyrir Heimsmeistaramótið og menn staðráðna í að blanda sér í baráttuna á toppnum þar.

„Eftir þennan leik er maður nokkuð ánægður með stöðuna á liðinu. Auðvitað er margt sem þarf að slípa til og við fáum nánast engar æfingar fyrir þessa leiki. Þannig að það er kannski ekkert skrýtið að kerfin hafi aðeins verið ryðguð í leiknum gegn Svíum. Eftir einn leik eru menn aðeins búnir að slípast saman og það gekk betur í dag. Ef við vinnum vel í okkar málum og við mætum í toppstandi í janúar þá er ekkert því til fyrirstöðu að við blöndum okkur í toppbaráttuna á Heimsmeistaramótinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×