Enski boltinn

Aquilani: Við verðum bara að halda áfram án Torres og Gerrard

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alberto Aquilani.
Alberto Aquilani. Mynd/AFP

Ítalski miðjumaðurinn Alberto Aquilani verður væntanlega í enn stærra hlutverki en vanalega þegar Liverpool sækir Stoke heim í ensku úrvalsdeildinni á eftir því liðið verður án skapandi manna eins og Fernando Torres, Steven Gerrard og Yossi Benayoon sem meiddust allir í bikartapinu á móti Reading.

„Við getum ekki verið að hugsa um þá leikmenn sem við höfum ekki. Við vitum alveg að Torres og Gerrard eru í hópi bestu leikmanna heims en við verðum bara að halda einbeitingu og halda áfram að spila þrátt fyrir að þeir séu ekki með," sagði Aquilani í viðtali við heimasíðu Liverpool.

Aquilani hefur ekki sannað virði sitt með enska liðinu eftir að hafa verið keyptur á 20 milljónir punda frá Roma.

„Það er mjög erfiðar aðstæður hjá félaginu en við verðum bara að halda áfram. Þessi helgi er gríðarlega mikilvæg og við verðum að fá eitthvað út úr þessum leik ef við ætlum að enda í fjórum efstu sætunum," sagði Aquilani.

Aquilani er ánægður með að fá Maxi Rodriguez til félagsins en Argentínumaðurinn verður væntanlega með í dag.

„Hann er mikilvægur leikmaður sem getur hjálpað okkur," sagði Aquilani.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×