Viðskipti innlent

Ferðamannatímabilið ekki eins slæmt og óttast var eftir gosið

Útlit er því fyrir að ferðamannatímabilið í sumar hafi ekki borið þann skaða af eldgosinu í Eyjafjallajökli sem óttast var og eru það gríðarlega jákvæð tíðindi.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að það hefði verið afar svekkjandi svo ekki sé meira sagt ef ferðamannaiðnaðurinn hefði ekki fengið sitt tækifæri til að blómstra í sumar nú þegar gengi íslensku krónunnar er jafn hagstætt ferðamannaiðnaðinum og nú.

Svo virðist sem eldgosið hafi fyrst og fremst haft áhrif í apríl og maí þegar gosið var í hámarki. Þannig sóttu tæplega 20% færri ferðamenn landið heim þá mánuði borið saman við sama tímabil fyrr árs. Gistinóttum fækkaði einnig um 10% í bæði apríl og maí frá fyrra ári. Þetta öskuský sem lá yfir ferðamannaiðnaðinum á vormánuðum virðist hinsvegar vera á bak og burt nú.

Þannig voru þeir erlendu ferðamenn sem hingað komu í júlí um 2% fleiri en á sama tímabili í fyrra. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu um brottfarir um Leifsstöð áttu 83.465 erlendir ferðamenn leið um flugstöðina í júlímánuði. Þá stóð fjöldi erlendra ferðamanna nánast í stað í júnímánuði samanborið við sama tímabil fyrir ári síðan en 54.391 erlendir ferðamenn komu hingað í júní.

Sömu sögu segja aðrir mælikvarðar sem við höfum um ferðamenn hér á landi. Samkvæmt tölum Hagstofunnar fjölgaði gistinóttum á hótelum í júnímánuði um 5,4% frá sama mánuði fyrra árs og voru gistinæturnar alls 157 þúsund talsins í júní. Fjölgunin skrifast alfarið á erlenda gesti en gistinóttum erlendra gesta fjölgaði um 10% í júní frá sama tímabili fyrra árs á meðan gistinóttum íslendinga fækkaði um 20%.

Loks virðist eldgosið ekki hafa slegið neyslu ferðamannanna út af laginu en nýtt met var slegið í eyðslu á erlend kreditkort hér á landi í nýliðnum júlímánuði. Heildarúttektir erlendra korta hér á landi í júlímánuði voru 9,7 mö.kr og hafa aldrei verið hærri. Aukningum nemur 11% frá sama mánuði fyrra árs í krónum talið en að raungildi með teknu tilliti til verðlagsþróunar er aukningin tæplega 7%.

Lágt raungengi krónunnar er erlenda ferðamanninum í hag og gerir það að verkum að verðlag á ösku og hraunmolum úr Eyjafjallajökli sem og öðrum varningi virkar eflaust hvetjandi til kaupa sem og það sem finna má á matseðli veitinga- og kaffihúsa.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×