Enski boltinn

Drogba setur Meistaradeildina í forgang

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Þrátt fyrir frábært gengi í ensku úrvalsdeildinni síðustu ár hefur Chelsea ekki enn tekist að lyfta Meistaradeildardollunni en það er æðsti draumur eiganda félagsins, Roman Abramovich.

Hann er ekki einn um að dreyma um sigur í þeirri keppni því framherjinn Didier Drogba vill helst af öllu vinna Meistaradeildina á þessari leiktíð.

Síðan Drogba kom til Chelsea hefur félagið þrisvar unnið deildina. Þrisvar sinnum hefur félagið orðið bikarmeistari og tvisvar deildabikarmeistari.

"Fyrst af öllu verðum við að fá lykilleikmenn liðsins aftur á fætur. Með alla klára í slaginn getum við unnið hvað sem er. Ég vil sjá okkur fagna sigri í Meistaradeildinni á Wembley," sagði Drogba sem leikur betur með hverju árinu.

"Ég tel mig verða betri á hverju ári. Ég var gamall þegar ég komst í að spila með þeim bestu eða 25 ára. Þar sem ég var orðinn þetta gamall þegar ég byrjaði í alvörunni er ég langt frá því að vera orðinn þreyttur á boltanum. Ég elska það sem ég er að gera."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×