Erlent

Vilja banna reykingar í heimahúsum

Óli Tynes skrifar
Bannað.
Bannað.

Alþjóða heilbrigðisstofnunin vill að reykingar á einkaheimilum verði bannaðar, til þess að hlífa börnum við óbeinum reykingum.

Norska blaðið Aftenposten segir að heilbrigðisyfirvöldum þar í landi hafi borist slíkt erindi. Stofnunin segir að 130 þúsund börn í Noregi verði fyrir heilsutjóni vegna reykinga foreldranna.

Heilbrigðismálaráðherra Noregs segir engan vafa á að börn eigi rétt á reyklausu umhverfi. Málið verði sjálfsagt rætt í ríkisstjórninni.

Hjá Lýðheilsustöð fékk fréttastofan þær upplýsingar að engin tilmæli í þessa átt hafi borist til Íslands.

Talið er mögulegt að Heilbrigðisstofnunin hafi byrjað á Noregi þar sem Norðmenn hafa verið framarlega í tóbaksvörnum.

Noregur gæti þannig hafa verið valið til sem tilraunaland til þess að gefa gott fordæmi sem síðan yrði fylgt eftir í öðrum löndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×