Fótbolti

AC Milan getur alveg spilað með alla fjóra í einu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic og Ronaldinho.
Zlatan Ibrahimovic og Ronaldinho. Mynd/AFP
Mino Raiola, umboðsmaður Zlatan Ibrahimovic, er duglegur að tjá skoðanir sínar og hann hefur ekki áhyggjur af því að AC Milan verði að láta eina eða tvær af stóru sóknarstjörnum sínum sitja á bekknum.

Ronaldinho, Pato, Robinho og Zlatan Ibrahimovic eru allir í herbúðum AC Milan og það er ólíklegt að þeir geti spilað allir inn á vellinum í einu enda ekki þekktir fyrir að skila mikilli varnarvinnu.

„Zlatan getur spilað allar fjórar stöðurnar og allir þessir leikmenn eiga það sameiginlegt að geta spilað margar stöður. Þeir eiga allir að geta spilað í einu en Allegri tekur að sjálfsögðu ákvörðunina um það," sagði Mino Raiola sem var búinn að gera Pepp Guardiola brjálaðan þegar Zlatan var hjá Barcelona.

Það er allavega ljóst að þjálfarinn Massimiliano Allegri hefur það lúxus-vandamál að hafa frábæra breidd í sóknarflota AC Milan liðsins í vetur því ekki má gleyma Filippp Inzaghi sem er enn á fullu og þegar búinn að skora á tímabilinu.

AC Milan vann 4-0 sigur á Lecce í fyrsta leik tímabilsins þar sem Pato skoraði tvö mörk en þá voru þeir Zlatan og Robinho ekki komnir til liðsins. Þeir ættu að fá að spila sinn fyrsta leik á móti Cesena á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×