Skoðun

Sigurjón Þórðarson: Endurreisnin verður ekki sjálfkrafa

Sigurjón Þórðarson skrifar

Þeir sem vilja drepa á dreif umræðu um ábyrgð á hruninu reyna að telja fólki trú um að nær allir landsmenn hafi verið þátttakendur og beri þar af leiðandi ábyrgð á ósköpunum. Ekki er það rétt, þar sem allur þorri fólks er fórnarlamb samlífis spilltrar stjórnmálastéttar og fjárglæframanna. Í raun er þetta ósvífinn leikur að koma inn sektarkennd hjá fólki sem stendur í harðri baráttu við að greiða af stökkbreyttum lánum.

Á sama tíma og fjórðungur heimila á í greiðsluerfiðleikum og hefur ekki fengið úrlausn mála í lánastofnunum, þá baða höfuðpaurar hrunsins sig í illa fengnum auði og eru í algjörum forgangi í gömlu bönkunum sínum við að fá fyrirtækin sem þeir ráku í þrot fyrir lítið á ný. Til að bæta gráu ofan á svart hefur ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar verið ötul við að ráða helstu þjóna þrjótanna í bankakerfinu inn í lykilstöður í stjórnkerfinu.

Ef það má saka almenning um eitthvað með réttu þá er það andvara- og gagnrýnisleysi í aðdraganda hrunsins. Grandaleysið var eðlileg afleiðing mikils áróðurs sem kom úr ólíklegustu áttum s.s. greiningadeilda bankanna, kostaðri umfjöllun jafnvel ríkisfjölmiðla, sjálfsritskoðun fjölmiðla í eigu fjárglæframanna, kostaðra stjórnmálaflokka og prófkjörsframbjóðenda auk kostaðra fræðimanna.

Skýrsla rannsóknarnefndarinnar á bankahruninu segir að miklar umbætur þurfi að verða á stjórnarháttum og stjórnsýslu við endurreisn landsins. Margir sem nú eru í lykilstöðum í samfélaginu eru þar fyrir beinan fjárstyrk hrunaaflanna.

Breytingar og endurreisn verður ekki af sjálfu sér heldur þarf almenningur sem nú blæðir að taka virkan þátt í lýðræðinu, að láta í sér heyra og ganga til liðs við raunveruleg umbótaöfl í landinu. Fjórflokknum er ekki treystandi til að greiða úr málum en leynimakkið og þjónkan við sérhagsmunaöflin hefur verið haldið áfram eftir hrun eins og ekkkert hafi í skorist. Eftir stendur að fyrir liggur að fara þarf í umtalsvert hreinsunarstarf eftir stærstu svikamyllu í sögu Evrópu bæði á hugarfari og starfsháttum.

Þrýstingur almennings ræður úrslitum um að þoka málum í rétta átt.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×