Handbolti

Hver tekur við af Aroni?

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Patrekur er sagður koma til greina í starfið.
Patrekur er sagður koma til greina í starfið.

Íslandsmeistarar Hauka eru í þjálfaraleit eftir að Aron Kristjánsson ákvað að taka við þýska liðinu Hannover Burgdorf næsta sumar.

Þorvarður Tjörvi Ólafsson, formaður handknattleiksdeildar Hauka, vildi ekkert tjá sig um væntanlegan arftaka Arons þegar leitað var viðbragða í gær.

Tjörvi sagði þó að Haukamenn ætluðu að reyna að klára sín mál fyrr frekar en síðar.

Menn eru þegar farnir að slúðra um málið og farnir að velta upp mögulegum arftökum.

Nöfn Stjörnuþjálfaranna Patreks Jóhannessonar og Atla Hilmarssonar eru á meðal þeirra þjálfara sem þegar er byrjað að tala um.

Patrekur þykir vera efnilegur þjálfari en hann hefur ekki fengið að starfa við þær aðstæður sem hann bjóst við er hann tók við Stjörnuliðinu á sínum tíma. Atli er síðan reynslumikill þjálfari sem gerði meðal annars KA að Íslandsmeisturum á sínum tíma.

Nafn Viggós Sigurðssonar hefur einnig verið nefnt í þessu sambandi en hann þykir þó ólíklegur kostur hjá Haukum. Sérstaklega þar sem hann náði engum árangri með Framliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×