Lífið

Raggi Bjarna syngur á Innipúkanum

Raggi Bjarna syngur á Innipúkanum sem verður haldinn í níunda sinn um verslunarmannahelgina.
Raggi Bjarna syngur á Innipúkanum sem verður haldinn í níunda sinn um verslunarmannahelgina.

„Ég ætla bara að vera ég sjálfur," segir söngvarinn ástsæli Raggi Bjarna en hann kemur fram á tónlistarhátíðinni Innipúkanum sem verður haldin í níunda sinn í Reykjavík um verslunarmannahelgina.

„Mér líst ótrúlega vel á þetta. Ég var með Dr. Spock í Vestmannaeyjum á Þjóðhátíð fyrir nokkrum árum, þannig að ég er vel undir þetta búinn," segir Raggi og hlakkar til að skemmta sér með unga fólkinu. „Ég ætla að syngja eitthvað af þessu fiftís-rokki. Síðan verður þetta eitthvert samkurl og ég syng kannski eitthvað með öðrum."

Raggi fylgir þar með í fótspor ekki ómerkari manna en Ómars Ragnarssonar, Gylfa Ægissonar, Bjartmars Guðlaugssonar og Megasar sem hafa allir sungið á Innipúkanum undanfarin ár.

Auk Ragga Bjarna koma fram á Innipúkanum í ár flytjendurnir Árstíðir, Berndsen, Jan Mayen, Markús & the Diversion Sessions, Me, the Slumbering Napoleon, Mr. Silla, Nóra, Nóló, Ojba Rasta, Retro Stefson, Retron og Snorri Helgason.

Líkt og í fyrra stendur Innipúkinn yfir í þrjá daga; hefst föstudaginn 30. júlí og lýkur 1. ágúst. Heimili Innipúkans í ár eru tónleikastaðirnir Sódóma og Venue, sem standa hlið við hlið á Tryggvagötunni, auk Naustsins milli Tryggvagötu og Hafnarstrætis, sem verður lokað fyrir bílaumferð. Miðaverð á Innipúkann er 2.900 kr. fyrir alla þrjá dagana og hefst miðasala á Midi.is í dag.

Næst á dagskrá hjá Ragga Bjarna áður en að Innipúkanum kemur er spilamennska í Allanum á Siglufirði á föstudagskvöld og í Kántríbæ á Skagaströnd á laugardagskvöld. - fb












Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.