Innlent

Nektardansarar komnir í bikiní

Eigandi nektarstaðarins Goldfinger þurfti að biðja dansarana sína um að fara í bikiní á miðnætti í gær, en þá tók bann við nektardansi á skemmtistöðum gildi. Hann segist líta til biblíusagna, þar sem Adam huldi nekt sína með einu laufblaði.

Alþingi samþykkti bannið með lagabreytingu í mars síðastliðnum. Þá voru undanþáguákvæði laga um veitingastaði afnumið, svo eftir stendur að veitingastöðum er óheimilt að bjóða upp á nektarsýningar.

En þá vaknar spurningin; hvað er nekt? Ásgeir, sem er eigandi fyrrum nektarstaðarins Goldfinger, er með svar við því.

„Í Biblíunni stendur að Adam hafi hulið nekt sína með einu laufblaði. Kannski er þar komin skilgreiningin á nekt. Ég held samt að nekt sé svo lengi sem maður afskræmir ekki, til dæmis ef maður væri með dverga, nei, ætli nekt sé ekki bara að sýna ekki sköpin á konunum."

Ásgeir segist ætlast til þess að konurnar hylji sköp sín í framtíðinni. „Ég vona að það reki það orð af stöðum sem bjóða upp á svona, að þarna fari fram glæpastarfsemi."

Og kannski eiga orð Hannesar Hafsteins ágætlega við, en hann orti: „Fegurð hrífur hugann meir ef hjúpuð er. Svo andann gruni ennþá fleir en augað sér." Ásgeir hlær og segir að svo geti vel verið. Það sem maður ekki sér sé oft meir æsandi en það sem beri fyrir augu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×