Viðskipti innlent

Stórt gap í kröfum Lýsingar

Málflutningur fyrir hæstarétti hefst í vaxtamálinu svokallaða í fyrramálið. Stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna segir stórt gap í kröfum Lýsingar sem þurfi að fylla.

Mikil óvissa hefur ríkt um þá vexti sem reiknaðir verða á gengistryggð lán eftir að gengistrygging var dæmd ólögmæt. Vaxtamálið snýst um einmitt það, en talið er að það muni hafa fordæmisgildi við uppgjör gengistryggðra lána. Lýsing stefndi þannig skuldara í vanskilum með gengistryggt lán, og voru kröfur fyrirtækisins misháar eftir þeim vöxtum sem reiknaðir eru á lánið, en kröfurnar eru í sex liðum.

Héraðsdómur féllst á fjórðu varakröfu fyrirtækisins um að óverðtryggðir vextir seðlabankans yrðu reiknaðir á lánið og er krafa fyrirtækisins á skuldarann samkvæmt því tæpar 800 þúsund krónur. Skuldarar höfðu hins vegar vonast eftir að hinur lágu erlendu vextir fengju að halda sér. Það kemur svo í ljós á næstu vikum hvort Hæstiréttur samsinni Héraðsdómi.

Marinó G. Njálsson, stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna gerir raunar athugasemd við að gap sé í kröfugerðinni, þar sem vægasta krafa Lýsingar um v hljóði upp á um 120 þúsund krónur, en allar hinar upp á meira en 790 þúsund, allt eftir mismunandi vaxtakjörum.

Marinó segir önnur vaxtakjör koma til greina, en hæstiréttur getur dæmt að álitum, það er dæmt aðra vexti á lánin en kröfugerðin leggur til. Marinó segir fyrirtækið til dæmis geta látið samningsvexti gilda og síðan beitt endurskoðunarákvæðum til að hækka þá smátt og smátt. Þá gætu skaðabótavextir samkvæmt lögum eða samkvæmt Seðlabanka Íslands verið reiknaðir á lánið, eða aðrir vextir seðlabankans með þaki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×